Kókómjólkurórar mínir

Peð í heiminum...I love it!

föstudagur, nóvember 24, 2006

Póstkort heim

Það sem ég lærði af viku ferðalagi um Austur-Evrópu:

1. Það er ekki hægt að treysta á Hostelbookers.com
2. Það er ekki gaman að sofa alklædd, tvö í einbreiðu rúmi í 1 fermetra klefa
3. Köngulónum fannst heldur ekki gaman að deila klefanum með okkur
4. Ef bóka á bíl, þá skal gera það með minnst tveggja vikna fyrirvara
5. Af öllum mætti skal forðast að aka bílnum inni í Búdapest
6. Kort eru yndislegir hlutir, sendir frá Guði og skulu ávallt vera höfð við höndina
7. Ef að ferðalangar eru tveir saman af sitthvoru kyninu skal kvenkyns ferðalangurinn ÁVALLT lesa kortið.
8. Ungverjaland er flatasta land í heimi, fyrir utan kannski Danmörku.
9. Matsölustaðir í Bratislava eru fáir og loka klukkan 7.
10. Strætóstjórar í Bratislava drekka ótæpilega í vinnunni.
11. Ef þú ert ekki með reiðufé á þér má gera ráð fyrir kortakerfið sé bilað á einu bensínstöðinni í 100 kílómetra radíus
12. Það er ekkert opið í Vín á sunnudögum
13. Vegakerfið í Póllandi eru the very definition á ringulreið
14. Þegar skila á bílnum skal gera það um hánótt til að forðast að bílaleigan geti hankað mann á
risastóru beyglunni og hálfs metra löngu rispunni á bílstjórahliðinni.

Fyrir utan nokkur smáatriði var þetta alveg æðisleg ferð. Hápunkturinn var að gista við Balaton vatn í Ungverjalandi sem er lítil paradís sem ég hafði aldrei heyrt um fyrr. Þar var lítill og sætur B&B sem var með herbergi á 50% afslætti vegna ekki-túristatímans sem er í október.
Seinasta daginn okkar keyrðum við til Póllands og skoðuðum Auschwitz-Birkenau. Það var skrýtin reynsla svo lítið sé sagt. Kannski var það bara mengunin í héraðinu en mér fannst eins og allt það ógeðslega sem fór fram þarna liggi ennþá í loftinu. Ekki þægilegt. Ömurlegur staður en mér finnst samt nauðsynlegt að hafa farið þarna. Ef að allir fræðast um það sem þarna fór fram þá kannski getur mannkynið komið í veg fyrir að þetta gerist nokkurn tímann aftur. Það mætti senda marga leiðtoga í skoðunarferð um þetta svæði.

En allavega...
Það gat skeð að eina haustið sem að ég væri ekki á landinu myndi snjóa almennilega. Það er eins gott að það verði eitthvað eftir þegar ég kem heim! Mig langar að byggja snjókarl! Það var búið að lofa mér miklum snjó hér í Prag en hann hefur látið á sér standa.
Eiginlega er veðrið búið að vera algjör draumur. Ennþá þvílíkt hlýtt og næstum aldrei rigining.

Okkur tókst loksins að stúta Opal flöskunni sem við komum með út. Hún var drukkin á stórskemmtilegu djammi með Elínu og bandarískri vinkonu hennar en þær komu í heimsókn um seinustu helgi. Við enduðum á karókí bar og þar var einmitt Guðgeir í karókí tekinn upp á myndband. Sem var mjöööög gaman að horfa á daginn eftir.

Einhvern veginn verð ég að taka til í fataskápnum mínum. Ég var náttúrulega ekki fyrr komin hingað út en ég fattaði að öll fötin sem ég tók með mér út voru annað hvort a) svört, b) með biluðum rennilás eða c) algjörlega ósamstæð. Ég var eitthvað að reyna að kaupa föt í "klassískum" stíl en þegar trúarbragðakennarinn þinn lítur á bolinn þinn og hrópar upp "Heida, Heida! I just got a 70's flashback!!" þá veistu að þú ert að gera eitthvað fundamentally rangt.

Kommentin ykkar bjarga mér algjörlega þar sem að ég er annars frekar sambandslaus við Íslandið. Þannig að kvitta hjá mér plís :-)
Later...

föstudagur, október 13, 2006

Frá bloggletingjanum mikla

Hmm....mætti hérna á bókasafnið með tölvuna klukkan 9 á föstudegi, þegar ég gæti annars sofið út, vegna þess að ég þurfti að gera eitthvað mjög mjög mikilvægt á netinu. En ég bara man ekki fyrir mitt litla líf hvað það var sem ég þurfti að gera þannig að ég blogga bara í staðinn.

Hér er lífið komið í nokkurn veginn fastar skorður, með skóla og heimalærdómi og tilheyrandi.
Ég veit ekki alveg hvað er besti áfanginn minn hérna og segi því bara eins og litli strákurinn: Bæði betra. Í öllum áföngum eru munnlegar kynningar. Því tengt er hér formúla fyrir stærðfræðiunnendur:

Ef að þrálát ofsafengin femni er jafnt og X og munnlegar kynningar fyrir framan fullt af fólki jafnt og Y þá er:

5Y + (Ragnheiður=X^6) = sundurskotnar taugar

Veit ekki hvort að þetta meikar einhvern sens, stærðfræðin er langt í frá mín sterkasta hlið en miklar líkur eru á að bráðni niður í lítinn poll á gólfinu þegar ég þarf að flytja kynningu ein og óstudd sem er í tvö skipti af þessum 5.

Tékkneska sjónvarpið er allt döbbað þannig að vikan fer í að hlakka til Stanley Kubrick myndanna sem eru sýndar á stöð 2 öll fimmtudagskvöld. Það er það eina sem er sýnt á ensku. Það og snilldarþættirnir Black Books. Einhverjar tilraunir hafa verið gerðar til að byrja að spila badminton en það er víst svo mikil eftirspurn hjá lókal gymminu hérna, að erfitt er að panta tíma.

Svo erum við að fá tvær heimsóknir. Tveir vinir hans Guðgeirs koma á morgun og verða yfir helgina og á mánudaginn kemur mamma og verður í 3 daga. Hlakka svo til að sjá hana að mér finnst ég vera að springa. Verst að ég get ekkert eytt tíma með henni (hef lúmskan grun um að þetta hafi verið planað hjá henni) vegna þess að á mánudaginn byrja líka miðsvetrarprófin.

Cue the funeral march.

Neinei, annars er ég ekkert það kvíðin fyrir þeim. Lítur út fyrir að verða bara stuttar spurningar í öllum prófum. Ekkert tveggja-blaðsíðna-svitnandi-ritgerðardæmi. Og ég kann efnið svosem sæmilega. Þetta er allavega engin Hagnýt Stærðfræði með Lobba. :) Þið fyrirgefið mér, Bifrestingar, þó að ég skælbrosi hringinn yfir þeirri óheppni af minni hálfu að missa af mjúkri rödd Lobba útskýra diffrun ásamt 10(!!!!) skyndiprófum. Ef að þarna er ekki komin fullkomin ástæða fyrir landflótta þá veit ég ekki hvað. Ég yrði alla ævina að komast upp úr þessum áfanga.

En eftir miðsvetrarprófin kemur miðsvetrarfrí í heila viku. Held líka að Elín verði í Prag helgina á eftir og verður gaman að hitta hana. En svo erum við líka að pæla í að skreppa í einhverja ferð, annað hvort til Munchen, Vínar eða Búdapest. Erum dáldið óákveðin í þessum efnum.

Bara 7 vikur eftir af þessari dvöl. Og enn erum við hvorki búin að skoða Prag kastala eða dýragarðinn...

10.000 kossar til ykkar allra. Kommentið eða þolið hefndaraðgerðir.

föstudagur, september 15, 2006

Czech it out!

Þá er því hræðilega taski lokið...þ.e.a.s. að vakna, drösla tölvunni í skólann og stinga henni í samband við netið hérna, eingöngu til að blogga fyrir ykkur, elsku fólk.

Ætla að byrja á að segja ykkur aðeins frá honum Outa. Outa er maðurinn sem átti hostelið sem við vorum á fyrstu 5 dagana okkar hérna. Outa.... er skrautlegur vægast sagt... Ef einhver man eftir the 70's Show, gaurnum sem átti ljósmyndaverslunina....Outa er nákvæmlega þannig. Maður að nálgast fimmtugt með sítt grátt hár og skegg, sem talar eins og hann hafi reykt aðeins of mikið um ævina. Hann drakk grænt heilsute, allan liðlangan daginn og borðaði eitthvað stappað heilsumúsli með einhverjum grunsamlegum ávexti saman við og svo súkkulaðisósu yfir allt. En hann var voða vinalegur við okkur þó hann móðgaðist pínku ef við vöknuðum ekki í morgunmatinn sem gerðist dáldið oft: "Me no stay in kitchen all day for late sleepers!"
En það sem pirraði okkur to no end, ofsalega mikið og það sem varð til þess að við ákváðum að framlengja ekki dvöl okkar þarna þó að það drægist að finna íbúð, var tónlistin. Stanslaust hávær tónlist alla daga frá 8 á morgnana til 9 á kvöldin. Outa hafði mjög breiðan tónlistarsmekk. Maður vaknaði kannski við U2 en ef við vorum ekki flúin niðrí bæ klukkan 11 þá tók við sá rammfalskasti söngvari sem nokkurn tímann hefur verið hleypt inn í upptökuver. Og hann spilaði undir á óstillt píanó. Þannig að við fórum eftir 5 daga. En sáum mikið eftir að hafa ekki brennt Bubba á disk fyrir Outa að skilnaði.

Prag... er æðisleg! Eftir 3 vikur hérna er ég komin á þá skoðun. Hún er gullfalleg og hálfur lítri af Budvar bjór kostar 90 krónur af bar en 40 krónur út úr búð. 2 fullir pokar af mat kosta minna en 1000 kall og innifalið er hvítvín. Æðislegt! Við erum mest lítið búin að skoða af aðal tourist attraction-um hérna en það stendur til um leið og við fáum stúdentakort og þar með góðan afslátt af öllu. Hins vegar er túristamenningin mikil hérna. Aðeins of mikil kannski. Hallærislegi frasinn hérna að ofan er einmitt gott dæmi um hana. Við hlógum mikið af gaurnum sem svitnar við skrifborðið sitt að hugsa upp frasa á boli til að selja ferðamönnum: "Prague Drinking Team: Czech it out!!!!" Pant ekki fá hans starf!
Íbúðin okkar... er æðisleg! Lítil og sæt og fullkomin. Nema ekki með neinu neti. Ekkert Wow því fyrir mig næstu mánuði en það tryggir þó að ég læri meira sem verður að teljast kostur. Íbúðin er semsagt í hverfi sem heitir Nové Mesto eða Nýja Hverfið (samt eldgamalt og friðað, og því bannað að setja net eða kapalsjónvarp í húsin). Það tekur okkur 20 mín. að labba í skólann en 10 mín að fara með metro. Við búum rétt hjá Veneslásartorginu (sem, ef þið þekkið ekki til þarna, er frábær staðsetning).
Skólinn... er æðislegur! Hér eru áfangarnir mínir:
Politics of the European Union: Skemmtilegur, kennarinn er sænskur lítill strákur með brennandi áhuga á ES og öllu sem því viðkemur.
International Relations: Ég veit ekki alveg með hann en námsefnið er mjög skemmtileg. Kennarinn er kona sem að eigin sögn hefur meiri áhuga á öryggismálum en alþjóðasamskiptum en hún ætlar þó að gera sitt besta. Ég vildi bara óska að hún notaðist við glærur því að það er oft erfitt að heyra í henni, hún talar svo lágt.
Elementary Czech: Ekkert alltof áhugavert svosem en alltaf gaman að kynnast nýju tungumáli. Byrjenda tékkneska er lauflétt að mínu mati og kennarinn gerir kennsluna að skemmtilegum leik.
Arab Cultures, Societies and Religions: Bind miklar vonir við þennan áfanga. Tveir fyrstu tímarnir voru mjög skemmtilegir og kennarinn er karakter, vægast sagt. Strax tveir nemendur hættir útaf henni og einn sagði að hún væri óþolandi hrokafull. Ég er ekki alveg búin að mynda mér skoðun en Guðgeir dýrkar hana strax.
Comparative Religions: Mjög skemmtilegur. Skemmtilegt námsefni og æðislegur kennari. ég hef fengið það verkefni að gerast Vedanti Hindúi næstu fjóra mánuði til að sjá hvernig ég stend mig. Ekkert nautakjöt semsagt.... Kennarinn sagðist hafa haft íslenska stelpu í kennslu hjá sér í fyrra sem var mjög góður nemandi og því búist hann við stórum hlutum frá þessum Íslendingi. Jæja, hann hefur 4 mánuði til að komast að öðru.

En semsagt...3 vikur liðnar af þessari dvöl og ég hlakka mikið til afgangsins.
Látið ekki klikka að kommenta hérna að neðan, ég sakna ykkar og hreina vatnsins mjög mjög mikið! Blogga aftur fljótlega.

Lýk þessu bloggi á broti úr laginu sem ég hlusta á þegar ég geng í skólann og lætur mér líða eins og ég geti allt:

This sugarcane
this lemonade,
this hurricane, I'm not afraid
C'mon, c'mon no-one can see me try

this lightning storm
this tidal wave,
this avalanche, I'm not afraid
C'mon, c'mon, no-one can see me cry

This sugarcane
that tasted good
that's who you are, that's what you could
C'mon, c'mon, no-one can see me try

P.S: Íbúðin hefur gestarúm...hint hint stelpur!

mánudagur, júní 26, 2006

Vegna eftirspurnar

Jæja....tími til að bæta einhverju við á þennan blessaða blogg kannski??

Ég hef í rauninni ekki frá miklu að segja. Er í skólanum bara og geri ekki neitt þess á milli. Djammlífið er frekar sorglegt þessa dagana og eiginlega dottið niður í ekki neitt. Ég auglýsi hér með eftir djammfélaga. Ég hef bara ekkert dansað síðan á eurovision og það telst frekar veikur árangur.

Ég auglýsi líka eftir starfi. Ég er búin í skólanum 26 júlí og þá vantar mig starf til að vinna. Það má gjarnan vera eitthvað létt sem borgar vel en það er samt ekki skilyrði. Hins vegar fylgir sá galli á annars yndislegri gjöf Njarðar að ég get bara unnið til svona 20 ágúst vegna þess að þá fer ég til Tékklands!

Já, þið heyrðuð rétt. Feimna sveitastelpan ætlar að leggja heiminn að fótum sér og hún ætlar að byrja í Prag.
Þar er hinn frægi skóli: Anglo-americká vysoká škola og hann er svo vitlaus og óheppinn að hafa samþykkt að taka að sér að koma einhverju viti inn í kollinn á mér í fjóra mánuði á næstu önn.
Því auglýsi ég einnig eftir húsnæði og herbergisfélaga í Prag...svona ef þið skylduð vita um eitthvað...

Ég auglýsi einnig eftir hollum matreiðsluuppskriftum en þær mega ekki vera of vondar(því frábið ég mér allar heilhveitipastauppskriftir, takk samt mamma).
Samkvæmt fréttum (ég vil samt ekkert kannast við það) hefur Ragnheiður fitnað nokkuð á seinustu vikum og glætan að ég fari að færa fiðrildið mitt aftur niður í núllið.
Ég læt því líka upp tapað/fundið auglýsingu þar sem ég lýsi eftir íþróttafötunum mínum. Þau samanstóðu af svörtum buxum(hvað annað? þetta er nú ég) og mjög hallærislegum eróbikkskóm(útsala í intersport). Ég á ennþá peysuna.

Ég skal léttast og komast í form þótt það verði mitt síðasta. Mig vantar smá dramatík inn í líf mitt á þessum seinustu og verstu tímum (auk þess sem ég hef það frá a.mk. TVEIMUR manneskjum að ég verði bæði fallegri og skapbetri þegar ég er grönn).

Auk þess auglýsi ég eftir fallegum kjól í brúðkaupið sem ég er að fara í um næstu helgi, ég auglýsi einnig eftir boðskorti í hitt brúðkaupið, sem ég er ekki boðin í, um þarnæstu Helgi (hint hint) og síðast en ekki síst auglýsi ég eftir heimsmeistaratitli fyrir landslið Englands. Það er þó næstum því jafn fjarlægur draumur og fullkominn og grannur líkami.

Þá er auglýsingahléinu lokið í dag. Næst á dagskrá: Æsispennandi heimildarmynd um ævi rykmaura.

laugardagur, júní 24, 2006

testing

sunnudagur, apríl 09, 2006

Páskafrí er staðreynd.
Vorpróf og Misserisverkefni eru búin(eða því sem næst) og hægt er að taka smá "my time" í eina viku.
Hér er to do list:

-Fara oft í sund.
-Fara oft út að labba með hundinn (og ekki bara út á Miklatún og til baka).
-Heimsækja mikið af vanræktum ættingjum.
-Heimsækja mikið af vanræktum vinum (og ekki bara til að fara á fyllerí).
-Vinna við að leiðrétta skýrsluna okkar.
-Læra undir upplýsingatækniprófið mitt.
-Fara til næringarfræðings.

Mér líður samt ekkert eins og ég geti gert neitt af þessum hlutum í augnablikinu. Ég er bara með tölvuna fyrir framan imbann að blogga og horfa á myndbönd með skrækum röddum fyrrverandi Idol stjarna og gerviefnahljómsveita. Hef ekki orku í að skipta um stöð og langar eiginlega ekkert til þess heldur. Meðalmennskan er kærkomin lausn eftir að hafa horft á Silfur Egils í allan dag. Ég hélt í alvörunni að þátturinn myndi aldrei enda. Samt vildi ég ekki horfa á neitt annað vegna þess að ég var hrædd um að kannski myndist fást botn í vandamál þjóðfélagsins eða eitthvað svoleiðis. En nei. Meirihlutinn af deginum fór í að horfa á uppstillingar á skjánum yfir athafnamestu verðbréfabraskarana. All around fun. Eða ekki.

Ekki það að ég gæti gert neitt annað. Er pínku eftir mig eftir gærkvöldið. Það var bara þrælskemmtilegt djamm sem byrjaði heima hjá Brynju og tók ekki endi þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Ég held ég hafi sagt " Ég ætla heim" að minnsta kosti þrisvar en alltaf varð bið á því að ég færi. Var semsagt mjög gaman og þó að lítið hafi verið dansað þá var bara þeim mun meira talað þrátt fyrir dálitla málhelti hjá undirritaðri. Verð samt að segja að Óliver er ekki skemmtilegur staður. Ég veit ekki hvað er hypið með þann stað!
Allavega gaman samt að djamma með Brynju aftur. Og spila scrabble við Bebe :-)

En ég nenni ekki að hafa þetta lengra í dag.
...later

föstudagur, mars 31, 2006

Ritstífla

Ritstífla er leiðinlegur hlutur og hún hefur þann pirrandi eiginleika að koma ávallt þegar síst skyldi. Klukkan er núna 23:27 á föstudagskvöldi. Ég er ein inni í missóherbergi hjá okkur að reyna að púsla saman rannsóknarskýrslunni okkar. Það er ekki nægjanlega gott flæði á henni og sumar nauðsynlegar upplýsingar vantar algjörlega inní.
Ég væri helst til í að taka alla skýrsluna eins og hún leggur sig og breyta henni algjörlega, uppbyggingu, efnisyfirliti og öðru en ég býst ekki við að hópmeðlimir mínir myndu bregðast vel við slíku kasti frá mér. Ég var víst með svo mikinn uppsteyt í hópnum mínum fyrir jól að það er eins gott að haga sér vel núna.
Annars eru sumir orðnir eitthvað agalega pirraðir. Ég veit ekki, kannski er ég svona lélegur hópmeðlimur en mér finnst alltaf eins og fólk vilji helst skeyta skapi sínu á mér þegar eitthvað bregður út af. Kannski ósanngjarnt að segja þetta en mér finnst alltaf virkilega leiðinlegt þegar fólk fer í fýlu út í mig og mér finnst eins og ég hafi ekki gert nógu mikið til að verðskulda það.
Allavega var pirringurinn í gær farinn að minna óþarflega mikið á sprenginguna fyrir jól og varð til þess að mig langaði helst til að skæla. Spurning um að ég fari þá bara að taka hintinu og reyna að leggja meira af mörkum.
Sem er ástæðan fyrir því að ég er hér seint um kvöld. Með ritstíflu. Verkefnið er ekki eftir mínu höfði og það fer þvílíkt í taugarnar á mér og orsakar það að ég á bágt með að breyta nokkru. Ég er hrædd við að það orsaki enn meiri pirring þegar aðrir mæta í eftirmiðdag á morgun.
Jæja, ég geri mitt besta, get svosum ekki gert meira en það.

Ef ég á að tala um eitthvað skemmtilegra þá vann ég Gettu Bifröst um daginn. Loksins.
Fékk fínan bikar og vín í verðlaun og allt. Ef ég á samt að vera sanngjörn þá vorum við tvö saman í liði. Telma átti afmæli sama kvöld svo að við stelpurnar héldum bara fínt partí fyrir hana sem byrjaði heima hjá okkur og endaði inni í skólabyggingunni klukkan hálf sex um morguninn. Þá vorum við sex eftir að spila og syngja og drekka ópal. Alltaf skemmtileg þessi þriðjudagsdjömm. Ætla að stela myndum frá Telmu við næsta tækifæri og setja inn á síðuna mína.
Ég átti að vera fundarstjóri í gær á fundi sem Kvennahreyfing Samfylkingarinnar ætlaði að halda hér á Bifröst. Ég var geðveikt stressuð og reyndi að undirbúa mig vel en á seinustu stundu kom skipun frá Kötu Júlíusdóttur þingmanni um að þær vildu einhvern reyndari í starfið. Ojæja. Hefði verið gaman. Fyndið samt hvað aðrir urðu miklu móðgaðri fyrir mína hönd en ég sjálf.
Það er alltaf verið að reyna að kalla saman stjórnina í þessu blessaða Samfylkingarfélagi hérna en það telst kraftaverk ef að fleiri en 2 stjórnarmeðlimir eru lausir sama kvöld.
En jæja, best að halda áfram með þetta ágæta verkefni. Hlakka til páskafrísins. Ef einhvern langar að bjóða mér til útlanda svona rétt á meðan fríið er þá væri það vel þegið :P Svona ef þið skylduð hafa verið að pæla :-)
....later